Langar þig að slappa af í heitum potti?

Hefur þú heimsótt þessar náttúrulaugar?

Sumarið er tíminn fyrir sund og á Íslandi standa okkur til boða einstakar náttúrulaugar víðs vegar um landið. Ég hef tekið saman smá lista yfir nokkrar þeirra:

Hrunalaug er staðsett nokkrum kílómetrum fyrir utan Flúðir. Laugarnar eru í raun og veru tvær. Önnur þeirra er steinhlaðin og stendur við gamalt hús sem má nýta sem búningsklefa.

Hrunalaug

Vígðalaug er staðsett við Laugarvatn er sögð búa yfir yfirnáttúrulegum lækningamætti. Laugin er reyndar lítil eða aðeins um 160 cm í þvermál og 30 cm djúp. Þrátt fyrir grunnt vatn er þó alveg vel þess virði að skreppa þangað og tylla sér ofan í.

Víti er einn sprengigíga í Öskju og hefur að geyma brennisteinsvatn sem er hægt að baða sig í. Vatnið getur verið misheitt allt frá 20° upp í 60° svo að maður verður að fara varlega en þegar maður hittir á góðan stað er upplifunin alveg einstök!

Víti í Öskju

Hveravellir eru ein mesta náttúruperla Íslands staðsett uppá hálendinu. Þar eru laugar sem er geggjað að leggjast í auk þess sem að það er hægt að stoppa aðeins og tjalda. Svo að ef ferð þín liggur yfir Kjöl er algjört möst að kíkja ofan í.

Grettislaug er staðsett við Reykjaströnd í Skagafirði. Hitastigið í lauginni er um 42°-43°. Boðið er upp á tjaldsvæði og hreinlætisaðstaða hefur verið reist í torfkofa í um 100 metra fjarlægð frá lauginni.

Landmannalaugar er einn af mínum uppáhalds stöðum á Íslandi. Þar er hægt að sjá alveg ótrúlega liti og andstæður í náttúrunni á meðan maður baðar sig í heitu laugunum. Þær eru mjög stórar og rúma stóra hópa af fólki. Laugarnar er á bilinu 34°-41°C – fullkomið hitastig til að baða sig í. 

Landmannalaugar

Góða ferð og njóttu vel!

)