Átt þú stundum erfitt með að muna námsefnið?

Leiðir til þess að muna 90% af því sem að þú lærir

Líður þér stundum eins og mér…eins og þú getir bara ekki lært allt þetta efni fyrir skólann? Það er jú staðreynd að við eigum mismunandi auðvelt með mismunandi fög, sumir eru betri í tungumálum og aðrir í raungreinum o.s.frv. En það þýðir samt ekki að það sé vonlaust og ekki hægt að bæta sig!

Rannsóknir á virkni heilans hafa sýnt fram á að mannsheilinn man:

 

  • 5% af því sem við lærum í fyrirlestrum (t.d. í skólanum)
  • 10% af því sem við lesum í bókum og greinum
  • 20% af því sem við lærum frá hljóði og myndum (t.d. myndum & myndböndum)
  • 30% af því sem við lærum frá sýnikennslu
  • 50% af því sem við lærum í gegnum hópaumræðu
  • 75% af því sem lærist í verklegum tímum
  • 90% af því sem við notum strax eða kennum öðrum

 

Ég vil strax benda á það að þessi grein er ekki skrifuð til að afsaka það að mæta ekki í fyrirlestra því að þessi 5% gætu verið eitthvað sem stendur ekki í bókunum og kennarinn getur gefið annað sjónarmið á námsefnið sem þú færð ekki frá bókunum. Reyndu frekar að fá sem mest út úr fyrirlesturnum með því að taka góðar glósur og vera þannig virkur í tímanum og spyrja spurninga sem gætu leitt til hópaumræðu.

Að lesa bækurnar er líka mjög mikilvægt en það er ekki nóg. Til að muna námsefnið betur er sniðugt að vera partur af námshópi sem hittist reglulega til að ræða það sem þið hafið verið að læra. En til þess að geta verið partur af því þarftu að vera vel lesinn og undirbúinn.

Önnur hugmynd gæti líka verið að deila námsefninu á milli ykkar og kenna hvort öðru þann part sem að þið lásuð. Þannig sameinið þið það að lesa námsefnið, taka þátt í hópaumræðu og kenna öðrum. Það ætti að leiða til þess að þú munir mun stærri part af því sem þú sem þú hefur lært. 

Með því að nota mismunandi námsaðferðir, notar heilinn mismunandi leiðir til þess að festa upplýsingarnar í minninu. Það borgar sig þess vegna að festast ekki alfarið í einni aðferð, jafnvel þó að þér finnist sú aðferð henta þér best. Það er best að nota þær allar í bland (leggja þó mesta áherslu á það sem hentar þér best).

 

Gangi þér vel að læra!

 

Fleira gagnlegt:

)