Lenti síminn í vatni?

Hvað er best að gera ef síminn verður fyrir vatnsskemmdum?

Misstirðu símann í poll, varstu að spila Angry Birds á klósettinu eða tala í símann á meðan þú settir pastað í pottinn? Ef þú ert svo óheppinn að missa símann í vatn þá má reyna nokkur ráð til þess að bjarga honum:

Skref 1

Taktu símann eins fljótt og þú getur uppúr vatninu, þerraðu hann og slökktu svo á honum. Ef það hefur þá þegar slokknað á honum EKKI prófa að kveikja á honum til að sjá hvort hann virki! Ef síminn er í sambandi þegar hann lendir í vökvanum taktu hann þá varlega úr sambandi. Þetta er allt gert til þess að koma í veg fyrir skammhlaup í símanum en það er einmitt það sem að skemmir hann. 

Skref 2

Taktu batteríið af símanum ef hann býður uppá það og taktu svo SIM kortið úr, þú gætir viljað eiga það og þær upplýsingar sem eru geymdar á því ef að síminn nær sér ekki aftur. Það eru hins vegar margir símar í dag sem að bjóða ekki upp á það að fjarlægja batteríið. Í þeim tilvikum þarf maður bara að sætta sig við það og vona það besta.

Skref 3

Þá er það að fara að þurrka símann. Ekki teygja þig í hárþurrkuna eða setja símann á ofn! Hitinn frá þessum tækjum gætu gert alveg jafn mikinn skaða og vatnið. Ef þú ert ákveðinn í því að einhvers konar blástur sé málið þá skaltu nota venjulega viftu sem hreyfir loftið bara hraðar en myndar engan hita. Annars mæli ég frekar með “hrísgrjóna aðferðinni” sem er fólgin í því að setja símann skál eða poka með hráum grjónum, hylja hann alveg og láta hann vera þar í að minnsta kosti 48 tíma (helst lengur). Hrísgrjónin sjúga í sig rakann og þurrka þannig símann. Hættan er hinsvegar sú að duft af grjónunum getur smogið inn í símann og gert skaða eða jafnvel heil grjón fest í tengjunum. Önnur lausn, sem getur komið í veg fyrir þetta, er að nota silica gel poka sem þú finnur oft í töskum og flíkum sem þú hefur keypt, þeir eru þar til að verja þær fyrir rakaskemmdum. Það er góð hugmynd að safna þeim bara svona just in case eða þú gætir prófað að fara inn í töskubúð og spurt hvort þau eigi nokkra poka. Þú þarft að hafa nóg af þeim til þess að þekja símann alveg og láta símann liggja undir pokunum í að minnsta kosti 48 tíma.

Silica gel sem fylgir oft með hlutum sem maður kaupir 

Skref 4

Þolinmæði!! Það er mjög mikilvægt að vera þolinmóður og leyfa símanum að þorna vel áður en hann er prófaður. Hafðu slökkt á símanum og láttu hann alveg vera í grjónunum eða silica gelinu í 48 tíma og helst lengur, alveg upp í 72 tíma. Það er svo gott að láta hann standa aðeins eftir að þú tekur hann uppúr.  

Skref 5

Prófaðu að kveikja á símanum. Það kviknar kannski ekki á honum alveg strax en prófaðu þá að hlaða hann í smá stund og prófa svo aftur. Ef heppnin er með þér og síminn virkar eftir að hann þornar þá skaltu bakka hann upp og vera viss um að allar myndir og annað efni á símanum, sem þú vilt halda, sé geymt á þurrum og öruggum stað. 

 

Fleira tengt efni:

)