Ert þú að byrja í nýju námi í nýjum skóla?

Ráð fyrir nýnema

Það fylgir því oft kvíðablandin spenna að byrja í nýju námi en hér eru nokkur góð ráð til að byrja það vel.

Þú berð ábyrgð

Þú hefur líklega heyrt þetta áður en ég varð samt að nefna þetta því að þetta skiptir miklu máli. Þegar þú byrjar í háskóla er enginn til staðar til að fylgjast með því að þú lærir heima og mætir í tíma. Þetta er allt undir þér komið og það þarf oft mikinn sjálfsaga til að ná góðum árangri. Settu upp námsáætlun og reyndu að mæta í sem flesta tíma. Það er mikilvægt að mæta í tímana því að þannig kynnistu kennaranum og getur lært inná það hvernig hann mun prófa úr efninu. 

Notaðu frítímann þinn viturlega

Þú kemst fljótt að því að það er tímafrekt að vera í háskóla, mikið að læra fyrir hvert fag og svo eru vísindaferðir næstum því á hverjum föstudegi. Sumir vinna með skólanum og svo er líka mjög gott að geta æft reglulega. Það hefur því aldrei verið jafn mikilvægt að skipuleggja tímann vel og halda vel utan um skilafresti á verkefnum og lesefni. Notaðu pásur á milli tíma til að byrja á heimadæmunum eða ritgerðinni þó þú eigir ekki að skila því fyrr en í enda næstu viku. Sá dagur kemur áður en þú veist af og það á það eiga líklega mörg verkefni eftir að bætast við. Gott skipulag kemur í veg fyrir óþarfa stress og leiðir til betri námsárangur. 

Borðaðu reglulega

Það tekur á að byrja í nýju námi. Ekki nóg með það að þú þurfir að læra námsefnið þá þarftu líka að læra á umhverfið og kynnast alveg fullt af nýju fólki. Það er því alveg gríðarlega mikilvægt að fylla á orkubirgðirnar og borða vel og reglulega. 

Þessi spurning er EKKI heimskuleg!!

Það getur verið ógnvekjandi að rétta upp hönd í fyrirlestrasal fullum af fólki sem maður þekkir ekki og spyrja spurninga - hvað ef að spurningin er heimskuleg? En þú getur verið viss um það að ef þú ert að hugsa það þá eru að minnsta kosti 10 aðrir í hópnum með sömu spurningu! Þeir koma allir til með að þakka þér fyrir að spyrja (líklegast samt bara í hljóði). Það borgar sig alltaf að rétta upp hönd sérstaklega þar sem að það gæti verið spurt um þetta á prófi.  

Taktu þátt í félagslífinu

Það er partur af náminu að mæta í vísindaferðir, árshátíðir og aðra viðburði sem nemendafélagið skipuleggur. Vísindaferðirnar geta t.d. hjálpað þér að mynda tengsl við atvinnulífið og svo er líka alveg ótrúlega mikilvægt að eignast vini og félaga sem geta hjálpað þér (og þú þeim) í gegnum námið.

Finndu út hvar þú finnur upplýsingar

Mundu eftir því að skoða korktöflurnar í skólanum og aðra svipaða staði þar sem upplýsingar eru hengdar upp. Finndu líka út á hvaða heimasíðum og samfélagsmiðlum þær eru að finna, það gæti t.d. verið Facebook hópur fyrir bekkinn sem gott er að vera partur af.

Taktu þér tíma til að læra hvar allt er

Það er alveg þess virði að nota nokkra tíma í að læra á staðinn. Hvar skrifstofurnar eru og bestu staðirnir til að borða og læra? Þetta sparar þér tíma seinna og svo verður þú líka öruggari og líður betur. 

 

Fleira tengt efni:

)